Foreldraráð Krógabóls
Foreldraráð starfar með hagsmuni barnanna og foreldra þeirra að leiðarljósi og fylgist með því að hlúð sé að velferð og réttindum barnanna í leikskólastarfinu. Foreldraráð fjallar um og veitir umsögn um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans og skulu stjórnendur leikskólans bera allar meiriháttar ákvarðanir um skólastarfið undir ráðið. Foreldraráð fylgist enn fremur með því að skólanámskrá og aðrar áætlanir séu kynntar fyrir foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar. Foreldraráðið fjallar um ábendingar frá foreldrum og öðrum forsjáraðilum um starfsemi leikskólans og aðbúnað barnanna og getur komið þeim á framfæri við leikskólastjóra eða bæjaryfirvöld.

Í foreldraráði Krógabóls eru:
Dísa Hrönn Kolbeinsdóttir, formaður
Katrín Ósk Steingrímsdóttir
Guðrún Þorsteinsdóttir
Auk þeirra situr Anna Ragna Árnadóttir leikskólastjóri alla fundi.


Starfsreglur foreldraráðsins

1. grein – Hlutverk

Foreldraráð starfar með h1agsmuni barnanna og foreldra þeirra að leiðarljósi og fylgist með því að hlúð sé að velferð og réttindum barnanna í leikskólastarfinu.

Foreldraráð fjallar um og veitir umsögn um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans og skulu stjórnendur leikskólans bera allar meiriháttar ákvarðanir um skólastarfið undir ráðið. Foreldraráð fylgist enn fremur með því að skólanámskrá og aðrar áætlanir séu kynntar fyrir foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar.

Foreldraráðið fjallar um ábendingar frá foreldrum og öðrum forsjáraðilum um starfsemi leikskólans og aðbúnað barnanna og getur komið þeim á framfæri við leikskólastjóra eða bæjaryfirvöld.

2. grein – Starfstímabil og kosning

Starfstímabil foreldraráðs er eitt ár og fer kosning í það fram á aðalfundi foreldrafélagsins í september. Óskað er eftir framboðum á fundinum og á hver forsjáraðili atkvæðisrétt ef til atkvæðagreiðslu kemur. Þrír fulltrúar eru kosnir í ráðið og skal stefnt að því að þeir komi af jafnmörgum deildum leikskólans. Æskilegt er að á hverju ári sitji a.m.k. einn fulltrúi sem setið hefur í foreldraráði áfram í ráðinu.

3. grein – Starfshættir foreldraráðs

Á fyrsta fundi foreldraráðs velja fulltrúarnir sér formann og gera drög að fundaskipulagi vetrarins. Formaður ber síðan ábyrgð á því að boða fundi og fylgja skipulaginu eftir.

Foreldraráð fundar 3-6 sinnum yfir veturinn. Stjórnendur leikskólans sitja fundi með foreldraráði að hausti og vori, á þeim fundum er rætt um skólastarfið og áætlanir kynntar. Fyrir aðalfund foreldrafélagsins að hausti fundar ráðið með stjórn foreldrafélagsins. Þess utan fundar ráðið án tengiliðs frá leikskólanum en stjórnendur eða foreldraráð geta óskað eftir fleiri fundum saman ef þurfa þykir.

Fulltrúar í foreldraráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeim er trúað fyrir út af setu þeirra í foreldraráði og varða fjölskylduaðstæður einstakra barna, hegðun þeirra og heilsufar eða önnur viðkvæm atriði sem eðlilegt er að fari leynt.

Á fundi foreldraráðs/aðalfundi foreldrafélagsins við lok starfstímabilsins gerir formaður þess grein fyrir starfi ráðsins áður en nýtt foreldraráð er kjörið.

4. grein – Birting starfsreglna og breytingar á þeim

Foreldraráðið lætur birta starfsreglurnar á heimasíðu leikskólans. Foreldraráð fer yfir starfsreglurnar árlega og gerir tillögur að breytingum ef þurfa þykir. Allar breytingar eru bornar undir atkvæðagreiðslu á aðalfundi foreldrafélagsins.