Foreldrasamstarf

Mikilvægt er  að  góð  samvinna  takist  við  upphaf  skólagöngu  milli  foreldra  barnsins og kennara leikskólans  þar  sem  gagnkvæm  samvinna  og  trúnaður  þeirra  á milli er forsenda þess  að barninu líði vel í leikskólanum. Daglegar upplýsingar um barnið heima eða í leikskólanum eru nauðsynlegar því oft veldur lítið atvik, hvort sem  er  í leikskólanum eða heima,  því að hegðun barnsins er ekki söm og áður.

Foreldrar eru ávallt velkomnir í leikskólann og hvetjum  við foreldra til að koma og dvelja með  barni sínu og taka þátt í daglegu starfi. Foreldrar geta  hvenær sem  er hringt  í leikskólann til þess  að spyrjast fyrir um  líðan barnsins. Einnig munu kennarar leikskólans hringja ef eitthvað  sérstakt  kemur  upp.

Ávallt  skal  látið  vita  um  komu  barns  í  leikskóla og brottför þess. Foreldrar eru beðnir að   láta   vita  ef  einhver  ókunnugur  sækir  eða  kemur  með  barnið  í  leikskólann en
viðkomandi þarf að vera a.m.k. 12 ára. Einnig  biðjum  við  foreldra  að  sýna  varkárni  á bílaplaninu,  slökkva á  bílunum  og  loka hliðinu á eftir sér.

Nauðsynlegt  er  að  tilkynna  breytingar  á  högum  og  aðstæðum  barnsins  s.s.  veikindi, fjarveru  foreldra,  nýtt  heimilisfang, nýtt símanúmer og breytta hjúskaparstöðu.

Foreldrasamtöl
Allir   foreldrar   eru   boðaðir   í   samtal   við   deildarstjóra   áður   en   barnið   byrjar   í leikskólanum. Foreldrar eru boðaðir í samtöl einu sinni á ári. Bæði foreldrar og kennarar geta óskað eftir samtali  ef þeir telja þörf á því. Foreldrar  2-3 ára  barna eru  boðaðir  í stutt  samtal  þremur  til  sex  mánuðum  eftir að barnið byrjar í leikskólanum. Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu.

Heilsubók  og skráningar
Til  að  fylgjast  með  þroska  hvers  barns  og  samskiptum  í  leikskólanum,  eru  gerðar skráningar. Þessar skráningar eru skráðar í bók sem heitir Heilsubók barnsins. Einnig er gerð skimun á öllum 3 ára börnum sem heitir EFI-2, þar er málskilningur og málþroski skoðaður í gegnum leik. Öll börn á elsta ári fara í HLJÓM-2 skimun, HLJÓM-2 hefur forspárgildi varðandi lestrarfærni í grunnskóla. Niðurstöður úr þessum athugunum eru kynntar foreldrum í foreldrasamtölum. Allar skráðar upplýsingar um börnin eru geymdar sem trúnaðargögn í leikskólanum  og síðar sendar  á Héraðsskjalasafn  Akureyrar.

Sértækar athuganir
Ef,  af  einhverjum  ástæðum,  talið  er  að  gera  þurfi  sérstakar  athuganir  á  barni  t.d. vegna   gruns um seinkaðan þroska, hvort heldur sem er andlegan, líkamlegan eða félagslegan, er  foreldrum kynnt það  sérstaklega og skrifleg heimild fengin til að gera þær athuganir sem þurfa  þykir. Niðurstöður þeirra athugana eru síðan kynntar foreldrum barnsins aftur og með samþykki þeirra leitað leiða til að aðstoða það.

Fréttir til foreldra
Leikskólinn er með heimasíðu og Facebook síðu og eru þar allar helstu upplýsingar um leikskólann. Foreldrar gerast vinir Krógabóls á Facebook, hver deild er með lokaða og leynilega hópa sem foreldrar fá aðgang að, inn í þessa hópa eru settar myndir af börnunum, fréttir af starfinu, mánaðardagatöl, tilkynningar til foreldra og aðrar upplýsingar sem þurfa að komast til skila. Einnig sendum við reglulega út tölvupósta í gegnum Mentor. Til að finna leikskólann á Facebook þarf að slá inn „Heilsuleikskólinn Krógaból“ og senda vinabeiðni, kennarar samþykkja foreldra og bjóða þeim í rétta hópa. Ákveðið hefur verið að samþykkja aðeins foreldra sem vini.

Foreldrafélag
Á  Krógabóli er starfandi foreldrafélag og allir foreldrar og forráðamenn barna þar verða sjálfkrafa félagar um leið og barnið byrjar í leikskólanum. Foreldrafélagsgjald er innheimt með gíróseðli tvisvar á ári, í september og í mars. Aðalfundur foreldrafélagsins er haldinn að hausti. Þar eru rædd málefni foreldrafélagsins og stjórn þess  endurnýjuð  en í henni sitja 5 manns. Mikilvægt er fyrir alla foreldra að mæta á aðalfundinn.

Foreldraráð
Samkvæmt lögum um leikskóla  frá  2008  skal starfaforeldraráð við leikskóla. Í foreldraráði   sitja   að  lágmarki  þrír foreldrar. Foreldraráð   starfar   með   hagsmuni barnanna  og  foreldra  þeirra  að  leiðarljósi  og  fylgist  með  því  að  hlúð  sé  að  velferð  og réttindum  barnanna í leikskólastarfinu. Foreldraráð  fjallar  um  og  veitir  umsögn  um  skólanámskrá  og  aðrar  áætlanir  sem  varða starfsemi  leikskólans  og skulu stjórnendur leikskólans bera allar meiriháttar ákvarðanir um  skólastarfið  undir  ráðið. Foreldraráð fylgist enn fremur með því að skólanámskrá ogaðrar áætlanir séu kynntar fyrir foreldrum og hvernig  þær eru framkvæmdar.

Hér má sjá foreldrahandbókina í fullri útgáfu:
Foreldrahandbók 2016