Sérkennsla

Börn eru ólík, þau búa yfir mismunandi getu, reynslu og þroska. Þau hafa ólíka styrk- og veikleika. Á Krógabóli er leitast við að taka tillit til hvers einstaks barns svo að það geti notið sín á eigin forsendum í barnahópnum. Þegar hegðun barns eða geta er ekki á við jafnaldra getur reynst nauðsynlegt að grípa inn í og veita barni stuðning og hvatningu í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum barnsins og fjölskyldu þess.

Sértækir námserfiðleikar, málþroskafrávik, þroskafrávik, hegðunarvandi, félagshæfnivandi og tilfinningalegir erfiðleikar eru dæmi um erfiðleika sem hægt er að vinna með í gegnum sérkennslu. Einnig vinnum við oft með minni háttar vandamál eins og t.d. að ná blýantsgripi o.þ.h.

Sérkennsla getur einnig verið fyrirbyggjandi. Við notum tvenns konar tæki í leikskólanum til að meta málþroskabarna, annars vegar málþroskaskimun sem kallast EFI-2 fyrir börn á fjórða ári og hins vegar HLJÓM-2 sem er athugun á hljóð- og málvitund barna á elsta ári. Þessar skimanir hjálpa okkur að finna þá einstaklinga sem eiga í erfiðleikum með ákveðna þætti í málinu, s.s. skilning, tjáningu eða hljóðkerfisvitund og koma þeim til hjálpar.

Sérkennsla getur farið fram bæði í barnahópnum eða í einstaklingstímum. Hún miðar að því að auka þroska barnsins og sjálfstraust ásamt því að vinna með veikleika þess.

Ef vandi barns er þess eðlis að leikskóli og foreldrar geta ekki leyst úr honum í sameiningu leitum við til sérkennsluráðgjafa sem starfar á fjölskyldudeild Akureyrarbæjar en í gegnum hann geta börn og fjölskyldur fengið aukinn stuðning, greiningu og ráðgjöf.

Með því að smella á tenglana hér fyrir neðan má lesa nánar um sérkennslu á Krógabóli:
Sérkennslustjóri
Sérkennslustefna Krógabóls
Vinnuferli tilvísanna til fjölskyldudeildar
Þjónusta fjölskyldudeildar