Á Krógabóli leggjum við tvær stefnur, skóla fyrir alla og snemmtæka íhlutun, til grundvallar í sérkennslu.

Skóli fyrir alla
Í skóla fyrir alla er lögð áhersla á að mæta náms- og félagslegum þörfum allra barna. Notaðar eru fjölbreyttar aðferðir til að þróa uppeldisstarf með getubreiðum barnahópi, þar sem sveigjanleiki, hvetjandi námsumhverfi og fjölbreyttir kennsluhættir eru hafðir að leiðarljósi. Markmiðið er að hvert barn sé metið út frá hæfileikum sínum og finni að það tilheyri skólasamfélaginu. Í skóla fyrir alla er það talinn kostur að börn séu ólík og margbreytileiki er álitinn vera sjálfsagður hlutur. Í slíkum hóp skapast góðar aðstæður til að vinna gegn fordómum og stuðla að víðsýni og umburðarlyndi, jafnt barna, foreldra og kennara. (Guðrún T. Thorlacius o.fl., 2004, bls. 5; Hafdís Guðjónsdóttir, 2008, bls. 160; Þórhalla Guðmundsdóttir, 1997, bls. 24–26).

Snemmtæk íhlutun
Markmið snemmtækrar íhlutunar er að draga úr áhrifum fötlunar eða sérþarfa á líf barna með skipulögðum markvissum aðgerðum og vinna forvarnarstarf fyrir börn í áhættuhópum, þar er átt við börn sem t.d. koma illa út úr Hljóm2 prófinu sem öll börn í elsta árgangi taka. Grundvallarmarkmiðið er hið sama fyrir alla eða að leitast við að koma í veg fyrir erfiðleika í þroska og aðlögun síðar á lífsleiðinni og veita aðstandendum barna stuðning. Snemmtæk íhlutun er oftast miðuð við tímabilið frá fæðingu og fram til sex ára aldurs en leitast er við að hefja íhlutun eins snemma og hægt er og aðlaga hana að þeim einstaklingi sem unnið er með hverju sinni. Hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar á vel við starf í leikskólum og hægt er að beita henni á ýmsa þætti í daglegu starfi og sérkennslu. (Jóna G. Ingólfsdóttir, 2008, bls. 130; Tryggvi Sigurðsson, 2001, bls. 39,41 og 2008, bls. 120).

Snemmtæk íhlutun á Krógabóli felur í sér að við viljum byrja strax að vinna með börnum sem við finnum að fylgja ekki jafnöldum í þroska. Við viljum veita þeim markvissan stuðning í stað þess að bíða og sjá til. Fyrstu æviárin eru mikilvægur tími og með samstilltu átaki foreldra og leikskóla má oft ná góðum árangri t.d. hvað varðar seinkun í málþroska, hegðunarvanda o.fl.

Stefna Krógabóls
Stefnurnar tvær, skóli fyrir alla og snemmtæk íhlutun, mynda grunninn að sérkennslunni þar sem haft er að leiðarljósi að öll börn óháð getu, kyni, tungumáli og þjóðerni séu jafn rétthá og fái sömu tækifæri í leikskólanum. Við leggjum áherslu á að kennarar horfi á námsþarfir nemenda sinna og styrkleika og leitist við að finna aðferðir sem virka fyrir hvern og einn einstakling. Við viljum koma til móts við nemendur með jákvæðni og mæta þeim þar sem þeir eru staddir.

Þarfir nemenda eru ólíkar og oft má ná góðum árangri með því að breyta kennsluaðferðum, umhverfi eða námsefni. Sumir nemendur geta þurft sérstaka aðstoð til að leysa sömu verkefni og aðrir í hópnum en við teljum mikilvægt að allir fái að vera með og upplifa sig sem hluta af skólasamfélaginu.

Sérkennsla á Krógabóli
Sérkennsla á Krógabóli á sér bæði stað inni á deildum í litlum hópum en einnig í daglegu starfi þar sem börn læra m.a. sjálfshjálp, sjálfstæði og félagsfærni. Við höfum einnig til afnota sérkennsluherbergi sem við notum ef við teljum að ekki sé unnt að kenna barni á fullnægjandi hátt inni á deild eða innan um önnur börn. Herbergið notum við bæði í einstaklingskennslu en einnig fara þangað hópar.

Einstaklingsnámskrár
Einstaklingsnámskrár eru mikilvægur grunnur fyrir sérkennslu á Krógabóli. Við notum þær til að skipuleggja nám einstaklinga með sérþarfir og tryggja að þeir séu virkir þátttakendur í skólastarfinu. Með einstaklingsnámskrá má aðlaga nám barna með sérþarfir að skólanámskrá og gera þeim kleift að stunda nám við sömu skilyrði og önnur börn. Námskrárnar taka mið af námsþörfum hvers og eins og auka líkurnar á að allir sem koma að þjálfun og kennslu barnanna vinni á sama hátt. Við teljum mikilvægt að einstaklingsnámskrár byggi á styrkleikum og áhugasviði þess sem hún er búin til fyrir og að í henni komi fram þau markmið sem stefnt er að, leiðir sem hægt er að fara að markmiðunum og upplýsingar um hvernig meta eigi árangurinn.


Heimildir:

Guðrún Tinna Thorlacius, Gunnlaug Thorlacius og Rebekka Jónsdóttir (2004). Rosalega ertu heppin að vera fötluð, leikskólinn Múlaborg. Evrópuár fatlaðra 2003. Reykjavík; Menntamálaráðuneytið.

Hafdís Guðjónsdóttir (2008). Grunnskólaganga – einstaklingsmiðað nám. Í Bryndís Hallldórsdóttir, Jóna G. Ingólfsdóttir, Stefán J. Hreiðarsson og Tryggvi Sigurðsson (ritstj.), Þroskahömlun barna, orsakir – eðli – íhlutun. Reykjavík; Háskólaútgáfan.

Jóna G. Ingólfsdóttir (2008). Íhlutun fyrstu árin. Í Bryndís Hallldórsdóttir, Jóna G. Ingólfsdóttir, Stefán J. Hreiðarsson og Tryggvi Sigurðsson (ritstj.), Þroskahömlun barna, orsakir – eðli – íhlutun (bls. 126–133).Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Tryggvi Sigurðsson (2001). Snemmtæk íhlutun: markmið og leiðir. Glæður, tímarit um uppeldis- og skólamál, 11, 39–44.

Tryggvi Sigurðsson (2008). Snemmtæk íhlutun – yfirlit og áherslur. Í Bryndís Hallldórsdóttir, Jóna G. Ingólfsdóttir, Stefán J. Hreiðarsson og Tryggvi Sigurðsson (ritstj.), Þroskahömlun barna, orsakir – eðli – íhlutun (bls. 119–125). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Þórhalla Guðmundsdóttir (1997). Frá leikskólanum Brekkuborg. Glæður, tímarit um uppeldis- og skólamál, 7(1),23–27.