Ef foreldrar eða kennarar hafa áhyggjur af þroska eða hegðun barns fer í gang ákveðið ferli.

1. Samtal við foreldra
Fyrsta skerfið er ávallt að ræða við foreldra, farið er yfir hvernig vandinn kemur fram í leikskóla og heima. Ræddar eru leiðir til úrbóta og næstu skref ákveðin. Unnið er með barnið í ákveðinn tíma í leikskólanum áður en ákveðið er hvort því er vísað áfram í sérfræðiþjónustu.

2. Gagnasöfnun
Fylgst er með barninu í leikskólanum, tekin myndbönd, gerðar þroskaskimanir eða annað sem getur hjálpað okkur finna hvar vandinn liggur og hvernig best er að takast á við hann.

Á Krógabóli höfum við réttindi til að leggja fyrir og lesa úr Íslenska þroskalistanum, Smábarnalistanum, AAL athugunarlista fyrir atferli leikskólabarna, TRAS málþroskaskimun, Hljóm-2 athugun á hljóð- og málvitund leikskólabarna og EVI-2 málþroskaskimun fyrir börn á fjórða ári. Einnig skráum við þroskaáfanga barnanna í Heilsubókina okkar.

Ef grunur er um málþroskavandamál er mikilvægt að foreldrar fari með barnið í heyrnarmælingu. Það þarf alltaf að gera áður en barni er vísað til talmeinafræðings.

3. Aðgerðaráætlun/einstaklingsnámskrá/skammtímanámskrá.
Unnin er aðgerðaráætlun/einstaklingsnámskrá/skammtímanámskrá þar sem unnið er markvisst með ákveðna þætti og árangur skoðaður eftir ákveðinn tíma. Ef kennarar/foreldrar telja framfarir ekki nægilegar þegar búið er að vinna með barnið í ákveðinn tíma er hægt að leita eftir stuðningi frá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar.

Fyrir foreldra getum við boðið upp á PMT námskeið eða meðferð. PMT námskeiðin eru haldin á vegum Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar fyrir foreldra barna með hegðunarfrávik. Á námskeiðinu læra foreldrar aðferðir til að stuðla að jákvæðum aga og minnka hegðunarvanda. PMT meðferð er fyrir börn með alvarlegri hegðunarfrávik. Þá hitta foreldrar ráðgjafa í einrúmi og vinna með honum að lausn mála. Nánar má lesa um PMT með því að smella HÉR.

4. Tilvísun í sérfræðiþjónustu
Ef vandi barns er þess eðlis að nánari greiningar og ráðgjafar sé þörf er hægt að leita til Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar. Á Fjölskyldudeild starfar sérkennsluráðgjafi og sálfræðingur sem þjónusta leikskólana. Allar beiðnir um talkennslu fara frá leikskólanum í gegnum Fjölskyldudeild. Sérkennslustjóri sér um að senda tilvísun þangað og óska eftir aðstoð. Ef vandi barns er læknisfræðilegur eða ef barnið þarf á sjúkra- eða iðjuþjálfun að halda þurfa foreldrar að fá tilvísun frá heimilislækni.

Með tilvísun þarf að fylgja greinargerð um barnið og þau gögn sem leikskólinn hefur safnað. Kennarar og foreldrar fylla út spurningalista um barnið sem sérkennsluráðgjafi les úr. Leikskólinn sendir í flestum tilvikum myndbönd til sérkennsluráðgjafa á fjölskyldudeild, í myndböndunum er barninu fylgt eftir í leikskólanum og leitast við að sýna viðbrögð barnsins í flestum stundum daglegs lífs. Myndböndin hjálpa sérkennsulráðgjafa að fá betri sýn á barnið, hvar það er sterkt og í hvaða aðstæðum það þarf aðstoð. Í sumum tilvikum kemur sérkennsluráðgjafi í leikskólann og hittir barnið og kennarana. Sérkennsluráðgjafi metur í samráði við leikskóla og foreldra hvort þörf sé á að senda barnið í þroskamat eða önnur greiningarúrræði. Sérkennsluráðgjafi sér um að senda barnið áfram t.d. til Greiningarstöðvar.

5. Fundur með sérkennsluráðgjafa, foreldrum og kennurum
Sérkennsluráðgjafi fer yfir gögn varðandi barnið og kynnir niðurstöður fyrir foreldrum og kennurum. Metur einnig í samráði við leikskóla og foreldra hvort þörf sé á að senda barnið í þroskamat eða önnur greiningarúrræði. Sérkennsluráðgjafi sér um að senda barnið í frekari greiningu ef þörf er á.

6. Teymisvinna og teymisfundir
Foreldrar hitta sérkennsluráðgjafa, sérkennslustjóra og kennara á fundum á um 8 vikna fresti. Þar sem farið er yfir hvernig barninu gengur heima og í leikskóla. Ákveðið er hvað á að vinna með hverju sinni.

Einnig geta foreldrar fengið ráðgjöf frá sérkennsluráðgjafa t.d. varðandi t.d. hjálpartæki, námskeið, stuðningsfjölskyldur, skammtímavistun, umönnunarbætur eða aðra þjónstu sem þeir kunna að eiga rétt á.

Þegar margir koma að málum barns, s.s. sjúkraþjálfari, iðjuþjálfi, talmeinafræðingur eða tengiliðir á Greiningarstöð eru haldnir stórir teymisfundir einu sinni til tvisvar á ári þar sem mál barnsins eru rædd.