HeilsustefnanÁrið 2006 voru stofnuð Samtök heilsuleikskóla og fékk Krógaból afhentan heilsufánann árið 2007. Heilsuleikskólar starfa eftir ákveðum viðmiðum og einkenna þrír þættir stefnuna en þeir eru hreyfing, næring og listsköpun.

Markmið.
Markmið heilsustefnunar er fyrst og fremst að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélaginu með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Mikilvæg er að auka gleði og vellíðan barnanna þar sem lögð er áhersla á næringu, hollt mataræði, hreyfingu og listsköpun. Markmið heilsustefnunnar er að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til frambúðar.

Skilgreining á heilsu
Heilsa er ástand líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar, frekar en það að vera laus við sjúkdóma eða fötlun.

Markmið heilsuleikskóla
Markmið heilsuleikskóla skal vera að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Í markmiðum skólans skal stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barna, með því að efla líkams -, hreyfi-, tilfinninga-, vitsmuna-, félags-, fagur- og siðgæðisþroska.

Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. Í heilsuleikskóla er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu. Markmið heilsustefnunnar er að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð næring, góð hreyfing og listsköpun skal ávallt vera aðalsmerki þeirra.

Uppeldishlutverkið
Kennarar eru fyrirmynd barna og þurfa því að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og jákvætt viðhorf gagnvart heilsu, það eykur vellíðan þeirra í starfi. Í heilsuleikskóla sinnir allt starfsfólk uppeldi og menntun barna. Kennarar þurfa að vera jákvæðir gagnvart heildarsýn heilsustefnunnar og hvetja til og upplýsa um mikilvægi þess að temja sér heilbrigðan lífsstíl. Stuðla skal að því að nýta þann mannauð sem leikskólasamfélagið býður upp á hverju sinni.

Leikurinn
Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins því hann er námsleið barnsins. Í bernsku felur leikur í sér nám, af leik sprettur ný þekking, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni. Í leik tjáir barn tilfinningar sínar og fær útrás fyrir þær. Áhersla skal lögð á að gefa tíma og skapa umhverfi sem hvetur til sjálfsnáms í gegnum leik. Í frjálsum leik þarf að vera til efniviður sem bíður upp á rannsókn og sköpun.

Næring
Stuðla skal að góðum matarvenjum og hollustu með áherslu á ferskleika og fjölbreytni. Leggja skal áherslu á að auka grænmetis- og ávaxtaneyslu barnanna og nota sykur, salt og fitu í hófi. Vatn skal vera aðgengilegt fyrir börn og starfsmenn. Við samsetningu matseðla skal tekið mið af markmiðum Lýðheilsustöðvar varðandi næringu barna og fá næringarráðgjafi til að fara yfir matseðla og viðurkenna þá.

Hreyfing
Umhverfið þarf að bjóða upp á möguleika bæði til gróf- og fínhreyfinga til að styrkja barnið líkamlega, andlega og félagslega úti og inni. Lögð skal áhersla á markvissa hreyfingu a.m.k. 1 sinni í viku fyrir hvert barn frá 2ja ára aldri, sem stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan ásamt gleði. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnsins og líkamsvitund, sem leiðir af sér aukna félagsfærni og leikgleði sem eflir vináttubönd.

Listsköpun
Mikilvægt er að vinna með og/eða tengja saman fjölbreytt tjáningarform listsköpunar s.s. myndlist, tónlist og leiklist. Lögð skal áhersla á markvissa listsköpunartíma frá 2ja ára aldri, þar sem unnið er með einn eða fleiri þætti listsköpunar. Markmiðið er að viðhalda forvitni, sköpunargleði, efla sjálfstraust og ímyndunarafl barnanna. Sjálft sköpunarferlið skiptir meira máli en útkoman. Lögð skal áhersla á að börnin fái tækifæri til að prófa sig áfram með fjölbreyttan efnivið, geri tilraunir og þjálfi upp færni sem leiðir af sér að þau verði viss um eigin getu.

Heilsubók barnsins
Heilsubók barnsins er gæðamatskvarði Heilsuleikskóla og segir til um hvort settum markmiðum heilsustefnunnar er náð. Hún hefur að geyma útfærð skráningablöð varðandi þroska og ýmsar upplýsingar um barnið. Skráningin gerir okkur kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og er einnig tæki til að upplýsa foreldra um stöðu þess í leikskólanum. Skráð er m.a. heilsufar, hreyfifærni, úthald, hæð og þyngd, næring og svefn, lífsleikni og færni í listsköpun. Skráningin skal fara fram tvisvar á ári, haust og vor og foreldrum boðið í viðtal í kjölfarið.

Húsnæði og umhverfi
Húsnæði og umhverfi skal vera með þeim hætti að það veiti vellíðan og hvetji til góðra leikja. Einnig skal það veita barninu öryggiskennd og fyllsta öryggis og hreinlætis gætt. Ánægjulegt vinnuumhverfi eflir gagnkvæma virðingu, sjálfstraust, samkennd, samstöðu og samstarf allra í heilsuleikskóla-samfélaginu. Inni í íþróttasvæði heilsuleikskóla skal hafa mjúkt íþróttagólf til að draga úr slysahættu. Útisvæði skal vera þannig hannað að það sé öruggt og bjóði upp á góða og fjölbreytta hreyfimöguleika. Gæta skal ábyrgðar og virðingar fyrir náttúrunni og umhverfinu.

Heilsuleikskólinn og heimilið
Áhersla skal lögð á virkt foreldrasamstarf sem þátt í vellíðan barna, þar sem mikilvægt er að náið samstarf og gagnkvæmt traust ríki á milli heimilis og heilsuleikskóla.

Krógaból tekur við heilsufánanum 1. júní 2007. Börnin á Krógabóli syngja fyrir gesti á hátíðinni í tilefni dagsins.

Krógaból tekur við heilsufánanum 1. júní 2007. Börnin á Krógabóli syngja fyrir gesti á hátíðinni í tilefni dagsins.

Anna Árnadóttir leikskólastjóri tekur við heilsufánanum frá Unni Stefánsdóttur stofnanda Heilsusamtaka leikskóla.

Anna Árnadóttir leikskólastjóri tekur við heilsufánanum frá Unni Stefánsdóttur stofnanda Heilsusamtaka leikskóla.

Nánari upplýsingar um Heilsustefnuna og Samtök heilsuleikskóla má finna á heimasíðu samtakana:

Heilsustefnan
Áhersluþættir heilsustefnunnar