lifsleiknilogoLífsleikni í leikskóla
Krógaból vann þróunarverkefnið „Lífsleikni í leikskóla“  ásamt leikskólunum Síðuseli og Sunnubóli árin 2001 til 2004 og byggir lífsleiknikennslan/dygðakennslan á því verkefni.

Stefna Krógabóls er að börnin tileinki sér lífsleikni í gegnum allt nám leikskólans, í því felst:
Að börnin verði sjálfstæðir einstaklingar og öðlist trú á eigin getu.
Að börnin tileinki sér innri aga, séu fær um að sýna kurteisi og samkennd og temji sér virðingu fyrir umhverfi sínu.
Að börnin læri að þekkja tilfinningar sínar eins og gleði, sorg og reiði og að hafa taumhald á þeim.

Lífsleikni byggist á alhliða þroska, færni til samskipta, rökrænnar tjáningar og að bera virðingu fyrir umhverfi sínu.

Allt okkar starf litast af lífsleiknikennslu hvort sem er í hópastarfi, samveru, listsköpun eða hreyfingu. Lífsleiknin er sem rauður þráður í öllu starfi okkar og ræðum við um lífsleiknina eins oft og mögulegt er í daglegu starfi.

Þróunarverkfnið Lífsleikni í leikskóla fékk viðurkenningu frá Íslensku menntasamtökunum fyrir framúrskarandi árangur í menntamálum.  Við erum að stolt af þessum verðlaun, þau eru góð hvatning til okkar.


Lífsleikni í leikskóla
Kristnihátíðarsjóður veitti 1. desember  verkefninu Lífsleikni í leikskóla, kennsluleiðbeiningar styrk að upphæð kr. 1.000.000. Leikskólarnir Krógaból, Síðusel og Sunnuból  unnu  að þróunarverkefninu en upp úr því hafa verið unnar vandaðar kennsluleiðbeiningar. Styrkurinn er mikil viðurkenning á þróunarstarfi leikskólanna og um leið hvatning til áframhaldandi vinnu við verkefnið..

Verkefnið hófst í ágúst 2001 og stóð í þrjú ár eða til 2004. Undirbúningsvinna var unnin veturinn 2000-2001.

Dr. Kristján Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Akureyri var faglegur ráðgjafi við verkefnið. Verkefnisstjóri var Sigríður Síta Pétursdóttir, ráðgjafi við skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri.

Hver leikskóli tilnefndi tvo verkefnisstjóra, einn aðalmann og einn til vara. Hlutverk þeirra var að halda utan um starfið í leikskólanum og skipuleggja það. Einnig að halda utan um les- og umræðuhópa og skipta verkefnum milli starfsmanna innan leikskólans.

Verkefnisstjórar í leikskólunum voru:
Krógaból: Sonja Kro.
Sunnuból: Hanna Berglind Jónsdóttir.
Síðusel: Guðrún Hafdís Óðinsdóttir og Hildur Óladóttir.

Rannsóknarspurningin sem gengið var út frá er:
Hefur skipuleg siðferðisumræða með leikskólabörnum áhrif á aga í leikskólastarfi?

Markmið með þróunarverkefninu var að efla siðferðisvitund barna og fullorðinna, í þeim tilgangi að verða bæði góð og fróð manneskja.

Búin voru til markmið fyrir bæði börn og kennara, því til þess að kennarinn geti verið góð fyrirmynd þarf hann að setja sér markmið og þekkja sín viðhorf og sína siðferðilegu sýn.

Allir hafa eitthvað gott til að bera og möguleika á að verða betri, markmiðið er að styðja við hið góða í einstaklingnum.

Aðferðirnar sem notaðar voru við að afla upplýsinga eru:
Spurningalistar lagðir fyrir úrtakshóp foreldra
Spurningalistar lagðir fyrir starfsfólk
Viðtöl við úrtakshóp barna
Uppeldisfræðileg skráning þar sem notast var við, myndband, segulband, ljósmyndir og skriflega skráningu, allt eftir því hvaða aðferð hentaði hverju sinni.

Leitast var við að svara spurningum eins og:
Hvernig tala börnin saman?
Hvar og hvernig verða árekstrar?
Hvernig leysa börnin úr ágreiningi?
Hvernig sýna börnin vináttu?
Hvernig þróast samskipti milli barna?

Í vinnu með yngri börnunum var unnið með loðtöflusögur og handbrúður. Í umræðum við börnin var gengið út frá sögum úr daglega lífinu og aðstæðum sem börnin þekkja vel.

Dygðir sem unnið var með á þeim tíma sem þróunarverkefnið stóð yfir:
Veturinn 2001 – 2002 vingjarnleiki, virðing, hófsemi, glaðværð.
Veturinn 2002 – 2003 hugrekki, hjálpsemi, þolinmæði, sköpunargleði
Veturinn 2003 – 2004 kurteisi, áreiðanleiki, samkennd, ábyrgð.

Haustið 2002 byrjuðum við að vinna með kennslugögnin Stig af stigi sem er fyrir 4 – 6 ára börn og nýttum við það sem hluta af þróunarverkefninu.

Lífsleikni – lokaskýrsla


Kennsluefnið Lífsleikni í leikskóla

Árið 2006 var gefin út veglegur kennslupakki sem hægt er að kaupa hafi leikskólar áhuga á að nýta sér efnið, best er að hafa samband við Guðrúnu Hafdísi, aðstoðarleikskólastjóra á Síðuseli (Hulduheimum) ef áhugi er fyrir að kaupa lífsleiknikassa eða fá kynningu efninu. Guðrún er með netfangið: god@akmennt.is

Kennslugögnin hafa reynst vel og hafa þau verið notuð sem grunnur að starfi í leikskólunum allar götur síðan.  Höfundar þessa kennsluefnis eru leikskólakennarar í leikskólunum Krógabóli, Síðuseli og Sunnubóli á Akureyri. Hann er afrakstur þriggja ára þróunarverkefnis sem hófst 2001 og lauk formlega 2004. Eftir það var haldið áfram að vinna með lífsleiknina sem er nú rauður þráður í starfsemi leikskólanna.

Innihald kennsluefnisins er sem hér segir:
36 verkefnaspjöld – með skipulögðum hópastarfstímum.
Handbók fyrir kennara.
Söngbók.
Handbrúða og tólf sögur með henni.
Geisladiskur.
Tvær loðtöflusögur.

Kennsluefnið byggist á tólf dygðum sem má skipta niður á nokkur ár.

Þær eru: Ábyrgð, Áreiðanleiki, glaðværð, hjálpsemi, hófsemi, hugrekki, kurteisi, samkennd, sköpunargleði, vinsemd, virðing og þolinmæði.

Vinna með dygðir
Áður en hafist er handa við dygðakennsluna er rétt að kynna sér vel handbókina og dygðavísana. Dygðavísar lýsa hverri dygð og gefa góðar hugmyndir að verkefnum. Einnig eru þeir skreyttir spakmælum til íhugunar. Þeir eru sendir heim til barnanna til þess að uppfræða foreldra og virkja þá í dygðakennslunni.

Kennarar þurfa að ræða dygðirnar og sameinast um hugmyndir.

Í hverjum mánuði eru foreldraboðorð og/ eða markmið barnanna send heim. Þau fjalla um uppeldi barna og er ætlað að hjálpa til í allri dygðakennslunni.

Lífsleiknin fer inn á öll námssvið leikskólans og er unnin í myndlist, tónlist, hreyfingu, málrækt, menningu og samfélagi og náttúru og umhverfi. Börnin fá þannig fjölbreytta mynd af lífinu.

Æfingin skapar meistarann!

Rauður þráður í daglega starfinu
Árangursríkast er að láta lífsleiknina vera sem rauðan þráð í starfinu. Hverja einustu mínútu er kennarinn með hugann við dygðina í vinnu sinni með börnunum. Ef hann sér eitthvað sem getur leitt til umræðna um viðkomandi dygð grípur hann tækifærið. Ef börnin byrja að ræða um dygðina þá styður kennarinn umræðuna með þátttöku sinni. Þegar kennarinn sér dygðina í framkvæmd hjá barnahópnum hrósar hann þeim.

Skipulag vetrarstarfs í lífsleikni samkvæmt kennsluefninu
Umræðuhópar kennara.
Leshópar kennara.
Dygðavísar sendir heim til barnanna þegar ný dygð er tekin fyrir.
Foreldraboðorð/markmið barna sett aftan á mánaðardagatöl í hverjum mánuði, einnig hengd upp í fataherbergjum leikskólanna.
Spakmæli, bókalistar og sönglagalistar tengd dygðum hengd upp.
Vinastundir einu sinni í mánuði.

Handbrúður
Í kennslupakkanum er ein handbrúða sem er mús. Henni fylgja tólf sögur, ein um hverja dygð. Með handbrúðunni er gott að ná athygli barnanna.

Hugmyndafræði
Hugmyndafræðin á bak við þróunarverkefnið Lífsleikni í leikskóla er tekin frá fimm fræðimönnum.

Hugmyndafræði Loris Malaguzzi beinist að trú á möguleika einstaklingsins. Rannsóknir barna og uppgötvanir eru mikilvægar og nauðsynlegt að þeim sé sýnd virðing.

Í kenningu Howards Gardner um fjölþáttagreind er talað um átta greindir sem hver einstaklingur býr yfir. Börnin fá því þjálfun á ólíkum sviðum í verkefnum sínum.

Í bók Daniels Goleman, Tilfinningagreind, kemur skýrt fram að góð tilfinningagreind hjálpi til við öll mannleg samskipti og því þurfi að leggja rækt við hana allt frá fæðingu.

Mannræktarstefnan, The Council for Global Education, leitast við að gera börnin bæði góð og fróð og þaðan kemur hugmyndin um dygðakennsluna

William Damon hefur skrifað mikið um siðferðisþroska barna og gert rannsóknir sem benda til þess að börn séu færari en haldið hefur verið í að leysa siðferðisleg vandamál. Hann styður það eindregið að siðferðiskennd barna sé örvuð allt frá frumbernsku.

Hver er sinnar gæfu smiður!

Þar sem kennsluefni í lífsleikni er mjög víðtækt, gerum við engar kröfur um að uppbygging vetrarstarfsins í lífsleiknikennslu í öðrum leikskólum verði sú sama og hér er lýst. Síst af öllu má setja alla í sama farið. Sköpunargleðin verður að fá að blómstra í þessari vinnu. Hver og einn leikskóli verður að finna út hvað honum hentar og hvernig hann vill leggja dygðirnar fyrir.