Veggurinn – málrækt í leikskóla
Veturinn 2014-2015 var málræktin tekin til endurskoðunar á Krógabóli og jafnframt unnin ný aldurstengd námskrá fyrir leikskólann. Markviss málörvun var aukin hjá öllum aldurshópum, búið var til nýtt efni og það sem til var í leikskólanum var flokkað og staðsett miðsvæðis. Aðgengi kennara að málörvunarefni jókst til muna og auðveldaði öllu starfsfólki leikskólans að vinna með málrækt á markvissan hátt.

Markmiðið með þróunarverkefninu var heildstæð nálgun á málrækt. Liður í því var að búa til skýra námskrá fyrir hvert aldursár og matsblöð þar sem kennarinn metur starfið jafnóðum, búnar voru til kennsluleiðbeiningar þar sem hreyfing og dygðakennsla var samþætt inn í verkefnin í samræmi við stefnu leikskólans.Mikið var lagt upp úr að verkefnin væru skemmtileg og að börnin læri málið í gegnum leik.

Verkefnið dregur nafn sitt af því að allt málörvunarefni leikskólans var sett á áberandi stað miðsvæðis í húsnæðinu. “Veggurinn” sem varð fyrir valin varð þannig að þungamiðju verkefnisins. Þar var málörvunarefnið flokkað niður í sex flokka eftir litum. Flokkarnir eru almenn málörvun, hljóðkerfisvitund, lestrarhvetjandi efni, sögugrunnur, stærðfræði og bókaverkefni.

Mikill áhugi skapaðist meðal kennara og barna á að vinna þematengd verkefni tengd bókum og/eða vísum og þulum í tengslum við þróunarverkefnið. Þessi vinnuaðferð hefur gefist afar vel. Við söfnum verkefnunum saman á Vegginn þar sem allir hafa aðgang að þeim. Við setjum eina bók í hvern poka og búum svo til og söfnum efni sem tengist bókinni í pokana. Öllum er frjálst að bæta við efni eða nota það sem aðrir hafa gert. Dæmi um verkefni í pokunum eru lykilorð úr bókunum, myndapúsl, brúður eða annar efniviður sem táknar sögupersónur eða hluti, sönglög, hugmyndir að myndlistaverkefnum, málræktarverkefni, hugmyndir að því hvernig hægt er að nota bækurnar með spjaldtölvum o.s.frv.

Árið 2015-2016 fékk leikskólinn myndarlegan styrk til að halda áfram með verkefnið og bæta spjaldtölvum inn í starfið.

Veggurinn – málrækt í leikskóla miðar að því að auka færni barna á íslenskri tungu, vekja áhuga þeirra á bókum og kenna þeim að vera læs á umhverfi sitt í gegnum leik.

Kynning á verkefninu
Bæklingur um verkefnið